Síðastliðinn föstudag fékk hluti þeirra viðskiptavina SP-fjármögnunar sem hafa bíla á kaupleigu og sótt hafa um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara sent bréf í ábyrgðarpósti þar sem samningnum er rift og hann beðinn að skila bifreiðinni innan fimm virkra daga.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga sé ekki gert ráð fyrir að þeir sem sótt hafi um greiðsluaðlögun geti greitt af kaupleigusamningum, en að sögn Kjartans Georgs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra SP-fjármögnunar, er það galli á lögunum sem verður að leiðrétta.
„Um leið og einstaklingur sækir um greiðsluaðlögun er hann kominn í greiðsluskjól og má ekki borga af bílnum,“ segir Kjartan og bendir á að greiða megi af húsaleigusamningum þar sem húsaleiga teljist til nauðþurfta en það sama eigi ekki við um bílana. „Það skýtur skökku við, því samkvæmt nýjum neysluviðmiðum er bíll talinn nauðsyn.“
Kjartan bendir á að bílar falli í verði um 20% á ári og augljóslega þurfi fólk að geta greitt viðgerðir og viðhald ef halda á bílunum í horfinu. Hins vegar sé í lögunum ekki gert ráð fyrir því að fólk megi greiða nema af tryggingum og opinberum gjöldum. Það sé útilokað að fólk hafi umráð yfir bifreiðum í marga mánuði án þess að borga af þeim né megi það greiða fyrir að halda þeim í horfinu.