Steingrímur íhugaði afsögn

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræddu við blaðamenn í …
Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon ræddu við blaðamenn í gær í kjölfar ákvörðunar forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingar. mbl.is/hag

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist hafa íhugað að segja af sér vegna Icesave-málsins. „Auðvitað veltir maður stöðunni fyrir sér. En ég komst að þeirri niðurstöðu að gera það ekki, vegna þess að þá fannst mér að ég væri hlaupa frá málunum á versta tíma,“ sagði Steingrímur, sem var gestur í Kastljósi í kvöld.

„Ég tók að mér umfram allt eitt hlutverk, eins og ég get, að draga vagninn á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála, og koma þessu landi út úr kreppunni. Ég tel að okkur sé að ganga þar býsna vel þó ýmislegt hafi verið okkur mótdrægt og margt leggist okkur til, eins og þar segir.“

Þá neitar Steingrímur því að hafa haft í hótunum við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, vegna málsins. „Ég hótaði engri afsögn. Ég sagði við forsetann það sama sem ég sagði við minn þingflokk, og það sama sem ég sagði við þjóðina eftir að hann synjaði málinu í janúar 2010, að ég áskildi mér rétt til að hugsa minn gang. Og ég gerði það í tvo sólarhringa,“ sagði Steingrímur.

Verið að fara yfir stöðuna

Spurður um viðbrögð Breta og Hollendinga við ákvörðun forsetans segir Steingrímur: „Við erum að vinna í því að fá það alveg á hreint hver staðan er í samskiptum ríkjanna, og það eru góðir snertifletir þar á milli. Ég geri ráð fyrir því að það skýrist mjög bráðlega nákvæmlega hvernig báðir aðilar líta á málið, eða allir aðilar. Þangað til annað kæmi þá í ljós þá göngum við út frá því að þessi samningsniðurstaða er þarna, hún er árituð með stöfum samninganefndarmannanna. Hún bíður klár og við eigum að geta gengið að henni bak kosningunum ef að lögin fá framtíðargildi og við getum þar af leiðandi klárað málið í framhaldinu.“

Aðspurður segir hann Bretar og Hollendingar hafi orðið mjög hissa á ákvörðun forsetans og einnig orðið fyrir vonbrigðum. Hins vegar hafi bresk og hollensk stjórnvöld brugðist við tíðindunum af yfirvegun. „Við vorum reyndar [...] búin að biðja um að það yrði þannig ef óvænt niðurstaða kæmi.“ 

Þá segist Steingrímur hafa vissar efasemdir um það að blanda saman þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-lögin og stjórnlagaþing. „Ég hef vissar efasemdir um að blanda þessu saman. En ég skil mjög vel sjónarmiðin að það er freistandi að gera það. Mjög freistandi,“ segir Steingrímur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka