Íslendingar þurfa nú að undirbúa þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave í annað sinn. Innanríkisráðuneytið sér um framkvæmd atkvæðagreiðslunnar en það er landskjörstjórn, sem ber ábyrgð á henni.
Landskjörstjórn sagði sem kunnugt er af sér störfum í lok janúar sl. í kjölfar þess að Hæstiréttur Íslands ógilti kosningar til stjórnlagaþings sem fram fóru á síðasta ári. Sem stendur gegna varamenn hlutverki landskjörstjórnar en Alþingi á eftir að kjósa nýja aðalmenn.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að það séu stjórnmálaflokkarnir sem tilnefna fulltrúa til setu í landskjörstjórn. Það verður gert á næstunni, að sögn Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Hún segir þetta vera á dagskrá Alþingis og hún hafi verið búin að leggja þetta fyrir þingflokksformenn áður en ljóst var hver niðurstaða forseta Íslands yrði.
Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna tóku gildi 2. júlí í fyrra. Þar kemur fram að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram innan tveggja mánaða ef forseti synji lagafrumvarpi staðfestingar. Þinginu ber jafnframt skylda til að halda kosningarnar svo fljótt sem kostur er. Innanríkisráðuneytið auglýsir kosningarnar samkvæmt lögum í síðasta lagi einum mánuði fyrir atkvæðagreiðsluna.