Að öllu óbreyttu munu Íslendingar ganga til atkvæðagreiðslu öðru sinni á rúmu ári og kjósa um ríkisábyrgð á endurgreiðslum til Breta og Hollendinga vegna Icesave-innlánsreikninga Landsbankans.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, tilkynnti á blaðamannafundi í gær að hann synjaði lögunum um ríkisábyrgð staðfestingar og vísaði þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu. Mikill meirihluti var fyrir samþykkt laganna á Alþingi, en Ólafur Ragnar vísaði til þess að tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu hefði verið felld með naumindum. Í ljósi aðkomu þjóðarinnar á fyrri stigum málsins, og þess að ekki hefði náðst samstaða um að Alþingi eitt lyki málinu, afréð forsetinn því að vísa því til þjóðarinnar á ný.
Samkvæmt nýsettum lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna skulu kosningarnar fara fram í síðasta lagi tveimur mánuðum eftir synjun staðfestingar. Því ættu kosningarnar að fara fram eigi síðar en 20. apríl næstkomandi. Lögin taka hins vegar gildi þegar í stað.
Talsmaður hollenska fjármálaráðuneytisins sagði í samtali við Morgunblaðið að stjórnvöld í Hollandi litu svo á að samningaviðræðum við Íslendinga væri lokið. Það væri nú íslenskra stjórnvalda að vinna úr stöðunni. Bresk stjórnvöld bíða upplýsinga um stöðu mála frá starfssystkinum sínum hér á landi. Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir ráðuneyti sitt munu fara í kynningarherferð á erlendri grundu, líkt og gert var í fyrra. Margir skilji til dæmis ekki ákvæði stjórnarskrár Íslands um málskotsrétt.