Ríkisstjórnin leggur til að vatnalögin frá 1923 haldi gildi sínu en gerðar verði á þeim ákveðnar úrbætur. Frumvarp þess efnis hefur verið afgreitt í ríkisstjórn. Verði frumvarpið að lögum munu vatnalögin sem Alþingi samþykkti 2006 aldrei taka gildi.
Mikil átök urðu milli stjórnar og stjórnarandstöðu þegar frumvarp um ný vatnalög var til umræðu í Alþingi 2006. Að lokum voru þau samþykkt en þáttur í afgreiðslu málsins var að gildistöku laganna yrði frestað til 2010. Gildistökunni hefur síðan aftur verið frestað og eiga þau eiga að ganga í gildi í haust, samkvæmt núgildandi ákvæðum þeirra.
Iðnaðarráðherra lagði til í fyrra að lögin yrðu afnumin og hefur á hans vegum verið unnið að nýjum lögum.
Á vef stjórnarráðsins segir að ákvæði núgildandi vatnalaga frá 1923 um inntak vatnsréttinda haldist óbreytt í öllum aðalatriðum, að frátöldum minniháttar lagfæringum, einföldun og sameiningu ákvæða. Réttur landeigenda til yfirborðsvatns sé því áfram skilgreindur með jákvæðum hætti, eins og verið hefur, þannig að landareign fylgir réttur til umráða og hagnýtingar á því vatni, straumvatni og stöðuvatni, sem á henni er.
Veigamesta breytingin, að mati iðnaðarráðuneytisins, felst í nýju fyrirkomulagi stjórnsýslu vatnamála sem kemur að öllu leyti í stað núverandi fyrirkomulags. Yfirstjórn mála mun skiptast á milli iðnaðar- og umhverfisráðherra en er nú á hendi atvinnumálaráðherra. Gert er ráð fyrir að umhverfisráðherra fari með yfirstjórn umhverfis- og vatnsverndar og annist framkvæmd tiltekinna greina laganna, en að öðru leyti lúti þau yfirstjórn iðnaðarráðherra.
Ákvæði eru um að tilkynna skuli Orkustofnun um allar framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í og tengjast vatni og vatnafari. Á þetta meðal annars við um malarnám í vatni, breytingar á árfarvegi og mannvirkjum í vötnum.