Á fundi ríkisstjórnar í morgun var engin ákvörðun tekin varðandi dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave frumvarpið eða hvort hún verður haldin samhliða kosningum til stjórnlagaþings.
Þetta sagði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, að lokum ríkisstjórnarfundi sem lauk á tólfta tímanum. Hann sagði að dagsetning þjóðaratkvæðagreiðslunnar myndi liggja fyrir í lok vikunnar, á föstudaginn.
Að sögn Ögmundar liggur ekki fyrir hver næstu skrefin verða í samskiptum Íslendinga við Breta og Hollendinga vegna Icesave, hvort sendinefnd verður send út til viðræðna eða hvernig samskipti munu fara fram.