Helmingur viðhaldskostnaðar vegna vöruflutningabifreiða

Stór vörubíll á Vesturlandsveginum.
Stór vörubíll á Vesturlandsveginum. mbl.is/Ingvar

Gróflega má áætla að rekja megi rúmlega helming af kostnaði við viðhald og viðgerðir á þjóðvegum til umferðar vöruflutningabifreiða. Ef horft er til allrar þungaumferðar má áætla að rekja megi um tvo þriðju af þessum kostnaði til hennar. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns Hreyfingarinnar.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði Ögmund Jónasson, innanríkisráðherra, út í umferðarslys og vöruflutninga á þjóðvegum. Fram kemur að ekki séu tiltækar ítarlegar upplýsingar um niðurbrot vega eftir mismunandi umferðarflokkum. Þungaumferð sé talin vera um 8% af heildarumferð, samsett af um 6% vöruflutningaumferð og 2% annarri þungaumferð.
   
Þá segir að fjárveiting til viðhalds vega árið 2011 sé 4.679 millj. kr. Gróflega megi áætla að rekja megi rúmlega helming af þessum kostnaði til vöruflutningabifreiða, en ef horft er til allrar þungaumferðar megi áætla að rekja megi um tvo þriðju af þessum kostnaði til hennar.

175 banaslys á tíu árum

Margrét spurði einnig út í banaslys og kostnað við þau undanfarin tíu ár. Í svari ráðherra segir að 175 banaslys hafi orðið í umferðinni frá og með desember 2000 til og með nóvember 2010. Þar af séu 28 banaslys þar sem vörubílar komu við sögu. Einnig er listað upp hversu mörg slys með alvarlegum meiðslum hafa orðið, eða 1.372, og slys með litlum meiðslum eða eingöngu eignartjóni, en þau eru 7.550. Önnur slys í umferðinni séu 65.795 á sama tímabili.

Beinn árlegur kostnaður miðað við öll slys nemur 37,3 milljörðum króna, samkvæmt svari ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert