Alþýðusamband Íslands segir að í nýlegri skoðanakönnun sem félagsvísindadeild Háskóla Íslands hafi unnið fyrir samtökin komi fram að 90% þeirra, sem hafi tekið afstöðu, finnist mikilvægt að ASÍ leggi áherslu á að jafna lífeyrisréttindi launafólks á almennum og opinberum markaði.
Fram kemur í tilkynningu að 60% aðspurðra hafi talið það mjög mikilvægt og 30% frekar mikilvægt.
6% hafi talið að það sé ekki mikilvægt að jafna lífeyrisréttindi á almenna og opinbera markaðnum og 3% alls ekki mikilvægt.
Félagsvísindastofnun Háskólans gerði skoðanakönnunina fyrir Alþýðusamband Íslands. Úrtakið var 1200 manna slembiúrtak úr þjóðskrá, 18 ára og eldri. Könnunin var gerð í gegnum síma dagana 5.-16. febrúar 2011. Nettósvarhlutfall var 62,9%.