Millidómstig mögulegt um næstu áramót

Sigurður Tómas Magnússon og Símon Sigvaldason á málþingi lagadeildar HR …
Sigurður Tómas Magnússon og Símon Sigvaldason á málþingi lagadeildar HR í dag. Sigurgeir Sigurðsson

Vinnuhópur sem taka á til skoðunar hvort setja skuli á fót hér á landi millidómstig stefnir enn að því að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. apríl nk. Formaður nefndarinnar telur mögulegt að koma nýjum dómstól á fót um næstu áramót. Til þess þurfi þó vilja Alþingis.

Millidómstig var til umræðu á málþingi lagadeildar Háskólans í Reykjavík í dag. Frummælendur voru Sigurður Tómas Magnússon, atvinnulífsprófessor við lagadeild HR, og Símon Sigvaldason, formaður Dómstólaráðs. Þeir sitja báðir í nefndum vinnuhóp og sinni Sigurður Tómas formennsku.

Nefndinni er falið að fara yfir kosti þess og galla millidómstigs og meta hvernig slíkum dómstól væri best fyrir komið. Sigurður Tómas fór yfir kerfið eins og það er í dag, tveggja dómstiga kerfi. Hann sagði íslenska kerfið einfalt, gagnsætt og auðvelt sé að læra á það. Þá sé kostnaði haldið í lágmarki og tók hann sem dæmi niðurstöður samanburðarrannsóknar sinnar á kostnaði við dómskerfi á Norðurlöndunum. Þær eru á þá leið, að kostnaður við íslenska kerfið sé aðeins 30-45% miðað við dómskerfin á hinum Norðurlöndunum. Því vakni sú spurning hvort ekki megi verja meiri fjármunum í jafn mikilvægan hlut.

Eingöngu áfrýjunardómstóll

Í reglunni um milliliðalausa sönnunarfærslu felst að æðri dómstóll getur ekki sakfellt mann, sem sýknaður hefur verið í undirrétti, á grundvelli framburðar hans sjálfs eða vitna, nema dómendur hafi sjálfir hlýtt á framburðinn og sönnunarfærslan þannig verið milliliðalaus fyrir hinum æðri dómi. Ekki hefur tíðkast að ákærði og vitni komi fyrir Hæstarétt til skýrslugjafar þótt rétturinn geti ákveðið að munnleg sönnunarfærsla fari þar fram. Meginástæða þess er sú að erfitt er að koma því við í framkvæmd vegna þess mikla álags sem hvílir á réttinum.

Af þeim sökum hefur Hæstiréttur því oftast nær gripið til þess ráðs að ómerkja héraðsdóm og vísa máli aftur heim í hérað ef dómarar hafa talið að mat héraðsdómara á sönnunargildi framburðar ákærða og vitna orki tvímælis. Sigurður segir það afar óheppilegt, m.a. þar sem þá leggi Hæstiréttur óbeinan þrýsting á héraðsdómara að komast að annarri niðurstöðu, s.s. þar sem línurnar hafi verið lagðar um sönnun. Hann sagði ennfremur að þó svo enginn viðurkenni að svona sé staðan séu til dæmi sem sýni fram á það.

Sigurður tók fram, að þar sem nefndin hafi ekki komist að niðurstöðu sé aðeins um hans skoðanir að ræða. Sagðist hann sjá fyrir sér millidómstól fyrir landið allt, eingöngu áfrýjunardómstól. Þar starfi 12-15 dómarar í fjórum eða fimm deildum og þrír dómarar séu í hverju máli, auk sérfræðinga sé þess talið þörf.

Hæstiréttur tæki þá eingöngu mál á grundvelli áfrýjunarleyfis og aðeins þar sem um sé að ræða stefnumarkandi dóma eða miklir hagsmunir í húfi. Hann sagðist telja að það gætu verið um 30-50 mál á ári. Þannig mætti fækka hæstaréttardómurum í fimm og hafa í einni deild.

Lengst af verið þrjú dómstig

Símon Sigvaldason fór þá yfir sögu millidómstiga á Íslandi og benti á að Íslendingar hafi lengst af búið við þrjú dómstig. Við stofnun Hæstaréttar árið 1920 hafi verið horfið aftur í að hafa tvö dómstig, en síðan þá hefur málið komið alloft upp. Meðal annars hafi réttarfarsnefnd samið mikið frumvarp til lögréttulaga á áttunda áratugnum, en markmiðið með því var að hraða málsmeðferð og aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald.

Mikil vinna var lögð í frumvarpið sem fjórum sinnum var lagt fyrir Alþingi, síðast 1980, en aldrei afgreitt. Ástæðan var andstaða sýslumanna en á þessum tíma rannsökuðu þeir mál og dæmdu.

Þá minntist Símon á að árið 2008 þegar nefnd um milliliðalausa sönnunarfærslu skilaði tillögu sinni til ráðherra dómsmála, en hún lagði til að millidómstig yrði tekið upp, hafi málið verið komið ansi langt á leið, og nánast var farið að leita eftir húsnæði fyrir dómstólinn. En þá hrundi efnahagurinn og málið lagðist af.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert