Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra telur að ef fréttir séu réttar um það sem hafi gerst í Líbíu þá hafi líbísk stjórnvöld gerst sek um stríðsglæpi.
„Fregnir greina frá því að þar hafi flugvélum og mjög þungum vopnum verið beitt gegn vopnlausu fólki. Það held ég að í krafti margra alþjóðlegra laga falli undir skilgreiningu á stríðsglæpum,“ sagði Össur á Alþingi í dag.
Það var Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sem spurði ráðherrann um afstöðu hans til atburðanna í Líbíu.
„Íslenska ríkisstjórnin fordæmir mjög harkalega framferði stjórnvalda í Líbíu,“ sagði Össur.
Hann sagði gleðilegt að sjá að um alla N-Afríku hafi farið bylgju frelsis. Það sé líka jákvætt að sjá að víðast hvar hafi stjórnvöld sýnt stillingu í viðbrögðum sínum. Hann sagðist hafa vonað að það boðaði breytta tíma. Hann sagði að íslensk stjórnvöld styðji öll öfl sem reyni að fá Gaddafi til að hverfa frá völdum.