Meirihlutinn vill að stjórnvöld afturkalli kvótann

Um tveir af hverjum þremur vilja að stjórnvöld afturkalli kvótann, hann verði í eigu ríkisins eða greidd sé leiga fyrir afnotarétt sem nemur markaðsverðmæti hans. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR.

MMR kannaði afstöðu almennings til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda og segir í tilkynningu frá MMR að í ljós hafi komið nokkur stuðningur við hugmyndir sem halli í þá átt að ríkið afturkalli fiskveiðiheimildir, það fari sjálft með eignarhald eða innheimti leigu fyrir afnotarétt sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans.

Þannig hafi 69,7% þeirra, sem hafi tekið afstöðu, sagt að þeir sem fái úthlutað kvóta eigi að greiða leigu til ríkisins sem endurspegli markaðsverðmæti kvótans.

66,6% sögðust því hlynnt að kvótinn ætti að vera í eigu ríkisins og 64,9% sögðu að stjórnvöld ættu að afturkalla gildandi kvóta og úthluta að nýju með breyttum reglum.

Þá kváðust 17,4% þeirra sem tóku afstöðu vera hlynnt því að handhafar kvóta greiddu eingöngu leigu fyrir afnotin sem næmi rekstrarkostnaði þeirra ríkisstofnana sem þjónusta sjávarútgerðina, 15,1% töldu að núverandi handhafar kvótans ættu að fá að halda honum áfram óskertum og 7,4% sögðust hlynnt því að þeir sem fengju úthlutað kvóta ættu að fá að ráðstafa honum að vild, þar með talið selja, leigja og veðsetja.

Þá sögðust 31,4% þeirra sem tóku afstöðu vera sammála því að hagsmunir núverandi handhafa kvótans og þjóðarinnar í heild væru sameiginlegir.

Nokkur munur reyndist á afstöðu svarenda til ráðstöfunar fiskveiðiheimilda eftir stuðningi þeirra við stjórnmálaflokka. Til að mynda voru 89% Samfylkingarfólks og 93% Vinstri grænna hlynnt því að stjórnvöld afturkölluðu gildandi fiskveiðiheimildir og úthlutuðu þeim að nýju með breyttum reglum, samanborið við 36% Sjálfstæðismanna

Könnunin var framkvæmd dagana 8.-11. febrúar 2011 og var heildarfjöldi svarenda 865 einstaklingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert