Fréttaskýring: Þrýst á Íslendinga að greiða

Hollenska dagblaðið De Telegraaf sló frétt af ákvörðun forseta Íslands …
Hollenska dagblaðið De Telegraaf sló frétt af ákvörðun forseta Íslands um synjun Icesave-laganna upp á forsíðu í gær.

„Sjálfur tel ég að menn muni stilla okkur upp við vegg og segja: Nú er það komið í ljós að þið uppfyllið ekki þessi skilyrði, og þá þurfið þið að borga það sem upp á vantar,“ segir Lárus Blöndal, fulltrúi stjórnarandstöðunnar í Icesave-samninganefndinni síðustu. Lárus reiknar ekki með því að Bretar og Hollendingar höfði bótamál hér heima, þótt það sé vissulega möguleiki. Heldur muni niðurstaða EFTA-dómstólsins og vísan í EES-samninginn verða notuð til þess að þrýsta á Íslendinga um greiðslu.

Komi Icesave-málið til kasta EFTA-dómstólsins í Lúxemborg er líklegt að tekist verði á um túlkun réttarreglna sem stafa frá EES-samningnum. Niðurstaða dómstólsins yrði ráðgefandi og óbindandi. Niðurstaða dómstólsins yrði þannig öðru fremur vopn í pólitískum ágreiningi landanna í millum og staðan að því leyti óbreytt. Vilji Bretar og Hollendingar hins vegar höfða bótamál á hendur íslenska ríkinu yrði það gert hér á landi.

EFTA-dómstóllinn líklegastur

Lárus segir málið í þeim farvegi að líklegast sé að það komi til kasta EFTA-dómstólsins, fari svo að lögum um ríkisábyrgð verði hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki náist nýir samningar. Hvað frekari samningaviðræður varðar kveðst hann ekki hafa trú á að sá kostur sé lengur fyrir hendi.

Þær raddir hafa heyrst í fjölmiðlum að mögulega gæti málið komið til kasta annarra dómstóla, til að mynda Alþjóðadómstólsins í Haag. „Það sem liggur fyrir er að þetta er á leið fyrir EFTA-dómstólinn og ég tel allar líkur á að málið fari þangað, verði samningarnir ekki samþykktir, hvort sem menn reyna að beina því eitthvað annað líka. Málið fer þá í þann farveg í framhaldi af áminningarbréfinu frá ESA,“ segir Lárus, og vísar til bréfs Eftirlitsstofnunar EFTA sem sent var íslenskum stjórnvöldum í fyrra.

Hófstilltari viðbrögð erlendis

Viðbrögðin við ákvörðun forsetans nú eru öllu hófstilltari en þau voru í fyrra, í það minnsta hvað Breta varðar. Fjármálaráðuneytið verst allra fregna og heldur sig enn við það að beðið sé nánari upplýsinga frá íslenskum stjórnvöldum áður en afstaða verður tekin í málinu. Breskir fjölmiðlar gera málinu að sama skapi lítil skil, sérstaklega ef litið er til fjölmiðlaumfjöllunarinnar í fyrra, og í flestum tilvikum skautað yfir staðreyndir málsins án frekari bollalegginga eða greiningar.

Höfundum leiðarans Lex í viðskiptadagblaðinu Financial Times hefur verið Icesave-deilan hugleikin, og er málið gert að umfjöllunarefni í pistli í gær. Þar eru færð fyrir því rök að hugsanlegt sé að samningarnir verði samþykktir í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem kjörin séu Íslendingum hagfelldari. Hins vegar verði að horfa til þess að eindregin niðurstaða kosninganna í fyrra hafi ekki leitt hörmungar yfir landið, nema síður sé. „Himinninn hrundi ekki yfir Íslendinga þegar þeir neituðu að greiða fyrir mistök bankamanna sinna. Ef þeir gera það aftur gætu aðrir farið að fá hugmyndir,“ segir í niðurlagi leiðarans.

Hollendingar virðast öllu reiðari en Bretar, í það minnsta ef marka má forsíðu hollenska dagblaðsins De Telegraaf, en þar er málinu slegið upp á áberandi stað.

EFTA-dómstóllinn
» Líklegt er að niðurstaða EFTA-dómstólsins verði fyrst og fremst pólitískt vopn í Icesave-deilunni.
» Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður telur ólíklegt að höfðað verði bótamál á hendur íslenska ríkinu.
» Hann telur líklegast, verði samningnum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu, að málið fari fyrir EFTA-dómstólinn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert