„Það er náttúrlega mikið að okkur þrengt. Ég veit ekki hvað verður en eins og staðan er núna þá stefnir í að skólastarfi ljúki um mitt næsta ár. Svo krossleggjum við fingur og vonumst til að þessu ástandi linni í þjóðfélaginu,“ segir Ólafur Haukur Johnson, skólastjóri Menntaskólans Hraðbrautar um ákvörðun menntamálaráðuneytis að endurnýja ekki samstarf við skólann.
Aðspurður hvaða lausnir séu nú í boði segir Ólafur að verið sé að skoða ýmsar leiðir. „Við erum ekki búin að gefast upp hér, það skyldi enginn ætla okkur það. Við erum að fara yfir málið og það verður tekin ákvörðun um það á næstu vikum hvernig við högum framhaldinu.“
Að sögn Ólafs hefur kennsla farið fram með eðlilegum hætti í dag. „ Ég kallaði nemendur saman og það fóru fimm mínútur af síðustu kennslustundinni. Við ætlum að reyna að stýra þessu á þann hátt að það verði engin truflun.“
Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag verður nemendum sem hófu nám sl. haust gert kleift að ljúka námi sínu við skólann á vorönn 2012. Að sögn Ólafs hefur mikil óvissa og hræðsla ríkt á meðal nemenda í nokkurn tíma og þeir að sjálfsögðu fegnir fréttunum. „Já ég myndi nú halda það að þeim væri mjög létt. Þetta er hins vegar hræðilegt mál að taka starfsstöð 225 einstaklinga og slátra þeim með þessum hætti.“
Á heimasíðu Menntaskólans Hraðbrautar má finna tilkynningu frá Ólafi varðandi málið.