Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt 34 ára karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á 14 ára pilt, sparka í hann nokkrum sinnum, hóta lífláti og líkamsmeiðingum og ógna með hafnarboltakylfu. Pilturinn hafði áður tekið fótbolta af syni mannsins og vini hans sem þá voru níu og tíu ára. Pilturinn hlaut mikið áfall og þjáist enn af vanlíðan vegna árásarinnar. Honum voru dæmdar 400 hundruð þúsund krónur í miskabætur.
Árásin átti sér stað á Vilhjálmsvelli við Skógarlönd á Egilsstöðumí maí á síðasta ári. Maðurinn játaði að hafa sparkaði í piltinn en neitaði að hafa hótað honum eða ógnað með hafnarboltakylfu. Hann lýsti viðbrögðum sínum þannig að hann hafi fengið símtal frá syni sínum þar sem hann tjáði honum að einhverjir eldri drengir hafi veist að honum og félaga hans og gengið í skrokk á þeim. Honum hafi orðið verulega brugðið og hann orðið hræddur um velferð sonar síns við þessi tíðindi. Hann hélt þegar af stað og greip með sér hafnarboltakylfu að eigin sögn vegna þess að hann hafi ekki vitað út í hvað hann væri að fara.
Í vottorði læknis segir að honum hafi verið það ljóst strax í fyrsta viðtali við piltinn að umrætt atvik hafði haft mjög alvarleg og djúpstæð áhrif á líðan hans. Það kom honum ekki á óvart enda lýsti pilturinn því vel hvernig hann var mjög hræddur um líf sitt meðan á árásinni stóð. Alvarleg kvíðaeinkenni sem pilturinn hefur sýnt eru vel þekkt sem afleiðing slíkrar ógnar þ.e. þegar einstaklingur verður hræddur um eigið líf.
Í greinargerð með bótakröfu í málinu segir að maðurinn hafi vopnaður hafnaboltakylfu slegið og sparkað í piltinn og hótað honum lífláti. Pilturinn hafi forðað sér á hlaupum undan manninum og það orðið honum til happs að maðurinn hrasaði og því misst af honum. Pilturinn hafi þá getað stöðvað bíl þar nokkuð frá og hafi ökumaður bílsins ekið honum heim til sín.
Við ákvörðun refsingar leit dómurinn til þess að maðurinn réðst á unglingspilt. Taldi dómurinn að árásin væri ofsafengin þrátt fyrir litlar líkamlegar afleiðingar, enda liggi fyrir læknisvottorð og
vitnisburður sálfræðings sem hefur piltinn til meðferðar „og verður að telja einsýnt
samkvæmt þeim að [pilturinn] hefur orðið fyrir verulegu andlegu áfalli við árásina sem hefur
haft veruleg áhrif á daglegt líf hans og lífsgæði og sér ekki fyrir endann á
þeim afleiðingum.“