Goðafoss dreginn á flot

Goðafoss dreginn af strandstað. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar.
Goðafoss dreginn af strandstað. Myndin er af vef norsku siglingastofnunarinnar. Vefur norsku siglingastofnunarinnar.

Goðafoss var dreginn á flot á morgun en skipið strandaði við Hvaler í Óslóarfirði sl. fimmtudagskvöld. Þrír dráttarbátar voru notaðir við verkið.

Að sögn fréttavefjar Fredrikstads Blad var skipið dregið á flot klukkan 7 að norskum tíma. Mikill viðbúnaður var á svæðinu. Fólk frá Rauða krossinum, almannavörnum Noregs, slökkviliði og björgunarsveitum var á staðnum auk starfsmanna norsku siglingastofnunarinnar.

Tvö norsk varðskip, Nornen og Harstad, og sænska varðskipið Poseidon, voru á svæðinu auk tveggja norskra og tveggja sænskra skipa með olíuhreinsibúnað. Yfir flaug flugvél norska flughersins sem fylgdist með því hvort olía læki úr skipinu þegar það var dregið á flot. 

Blaðamaður Fredrikstads Blad, sem fylgdist með, segir að í raun hafi skipið flotið sjálft af strandstaðnum á háflóði.

Að sögn norsku siglingastofnunarinnar sást myndaðist þunn olíubrák á sjónum þegar skipið var dregið á flot en lensudælur, sem voru í kringum skipið, hreinsuðu brákina strax.   

Tveir dráttarbátar drógu Goðafoss á flot en sá þriðji var í viðbragðsstöðu. Skipið var dregið inn fyrir Kjerringholmen þar sem það lagðist við akkeri. Verða skemmdir kannaðar og síðan verður farmurinn fluttur í Dettifoss, systurskip Goðafoss, sem kemur til Fredrikstad í kvöld. Einnig verður olíu dælt af skipinu.  Líklegt er að skipið verði síðan dregið til Gautaborgar eða Danmerkur til viðgerðar.

Alls voru 435 gámar um borð í Goðafossi og af þeim 188 tómir. Farmurinn var samtals 3459 tonn en hluti gámanna var fluttur frá borði þar sem talið var að létta þyrfti skipið um 1200-1500 lestir áður en það var  dregið af strandstað.

Skipið lá fast á 50 metra kafla fyrir miðju þess en fram- og afturendi voru á floti.

Rúmlega 800 tonn af olíu voru um borð þegar skipið strandaði. Hundrað rúmmetrar af olíu hafa verið hreinsaðir upp en það eru í kringum 100 tonn. Fjórir tankar eru skemmdir, en olía var í þremur þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert