„Það er í sjálfu sér bæði gömul saga og ný að lagaskyldan til greiðslu er ekki hafin yfir vafa. Það er engin breyting á því. En eftir stendur það mat hvort menn vilji freista þess að verja meiri hagsmuni fyrir minni með því að ljúka þessu máli með samningum. Það hagsmunarmat er ekkert breytt,“ segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, aðspurður hvort að skrif tveggja virtustu viðskiptadagblaða heims um Icesave-málið hafi haft áhrif á afstöðu helstu stuðningsmanna Icesave.
Financial Times tók afstöðu með Íslendingum í Icesave-deilunni í desember síðastliðnum og Wall Street Journal gerði slíkt hið sama fyrir skömmu. „Verði lögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl þýðir það að Ísland gæti orðið veðsett London og Haag í allt að 35 ár – vegna þess að bresk og hollensk yfirvöld ákváðu, að eigin frumkvæði, að leysa borgara sína úr snörunni,“ var m.a. ritað í leiðara Wall Street Journal á þriðjudag.
Aðspurður hvort að líkur séu á því að tap í dómsmáli muni kosta minna en Icesave samningurinn segir Árni Páll: „Ég held að áhættan af dómsmálinu sé miklu meiri og ég bendi á ummæli lögfræðinganna fjögurra sem fóru yfir það mjög vandlega fyrir fjárlaganefnd.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur í sama streng.