Það var í nógu að snúast hjá Sigurði Aðalsteinssyni, útgerðarmanni á Flateyri, í gærmorgun. 28 manns hafa verið ráðnir til starfa hjá Lotnu á Flateyri og framundan var að ráða skipstjóra og stýrimann á línubát fyrirtækisins. Sömuleiðis þrjá kalla á grásleppubát sem byrjar veiðar fljótlega.
Starfsmenn Matís unnu að úttekt á fiskvinnslunni og línubáturinn Kristbjörg ÍS lá við bryggju með níu tonn af fiski sem fara á ferskur á Evrópumarkað. Í öllu atinu og miðju símtalinu hringdi síðan pásubjallan til að minna á að líf er að færast í vinnsluna á Flateyi eftir hremmingar síðustu vikna.
Í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir að allt hafi þetta gengið upp. Matís hafi gefið út leyfi til að hefja vinnslu og skipstjóri var ráðinn á bátinn. „Mér líst bara mjög vel á þetta og hér eiga að vera kjöraðstæður til útgerðar og fiskvinnslu,“ sagði Sigurður, sem stendur að fyrirtækinu Lotnu ásamt Kristjáni Kristjánssyni og fleirum.