Stjórn Félags leikskólakennara lýsir þungum áhyggjum af þróun leikskólastarfs vegna gríðarlegs niðurskurðar hjá sveitarfélögum landsins í ályktun, sem send hefur verið fjölmiðlum, og varar eindregið við frekari niðurskurði til leikskóla.
„...Víðast hvar hefur verið skorið inn að beini í rekstri leikskólanna og útlit er fyrir að skólarnir geti ekki með nokkru móti sinnt lögboðnu hlutverki sínu komi til frekari niðurskurðar,“ segir m.a. í ályktuninni.
Stjórn FL gagnrýnir harðlega hugmyndir um sameiningar tveggja eða fleiri leikskóla eða samrekstur leik- og grunnskóla með það eitt að markmiði að spara stjórnunarkostnað skólanna. „Leikskólastjórar eru faglegir leiðtogar í leikskólum þar sem víðast hvar sárvantar leikskólakennara til starfa. Þessar hugmyndir eru því aðför að leikskólanum sem fyrsta skólastiginu í menntakerfinu og í hrópandi ósamræmi við nýlega löggjöf um leikskóla og þá framtíðarsýn sem þar er sett fram.“
Stjórnin bendir jafnframt á að nú sé mikilvægara en nokkru sinni áður að standa vörð um velferð og öryggi barna. „Höfum hugfast að börn eiga aðeins eina æsku og ekki er hægt að bæta þeim upp það sem þau fara á mis við síðar. Látum ekki börnin borga kreppuna.“