Fréttaskýring: Ekki áform um frekari kynningu

Ekkert liggur fyrir um það hvort ríkisstjórnin láti óháða aðila vinna efni og kynna vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, eins og gert var við síðustu atkvæðagreiðslu. Þótt dagsetning sé ekki komin eða tillaga að spurningu til að leggja fyrir þjóðina er ekki langt að sækja fordæmið.

Innanríkisráðuneytið mun láta senda sérprentun Icesave-laganna sem forsetinn synjaði staðfestingar inn á öll heimili landsins, eins og kveðið er á um í lögum. Það hyggst ráðuneytið láta duga. Fjármálaráðuneytið ætlar að bæta við upplýsingum á Icesave-vef ráðuneytisins og gera hann sýnilegri. Þá verður vísað til upplýsingabanka sem myndast hefur á vef Alþingis.

Allsherjarnefnd vildi kynningu

Þegar þjóðaratkvæðagreiðsla vegna Icesave-laganna í fyrra var undirbúin gerði ríkisstjórnin ekki ráð fyrir sérstakri kynningu á efni málsins. Þegar lögin um atkvæðagreiðsluna voru til umfjöllunar Alþingis var í allsherjarnefnd rætt um mikilvægi hlutlausrar kynningar á málinu.

Það varð til þess að dómsmálaráðuneytið fól Lagastofnun Háskóla Íslands að semja hlutlaust kynningarefni fyrir almenning og Athygli aðstoðaði við að koma því á framfæri. Efnið var birt á vefnum thjodaratkvaedi.is og bæklingurinn „já eða nei“ sendur út.

Ráðuneytin virðast enn ekki komin á þennan reit, hvað sem síðar verður.

Kjósendur þurfa að svara því hvort þeir vilji láta Icesave-lögin halda gildi sínu eða ekki. Tillaga ráðuneytisins að spurningu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í fyrra þótti of flókin. Sérfræðingar töldu hana nánast ólæsilega. Henni var breytt á Alþingi.

Lög nr. 13

Innanríkisráðuneytið ákveður orðalag og framsetningu spurningar á kjörseðli. Hún gæti hljóðað svo, miðað við fordæmið frá því í fyrra og langt heiti laganna: Lög nr. 13/2011 kveða á um heimild til handa fjármálaráðherra að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum. Alþingi samþykkti lögin en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 13/2011 að halda gildi?

Gefa þarf tvo svarmöguleika. Síðast voru þeir orðaðir svo: „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“.

Gæti fallið í skuggann af Icesave

„Ég skil mætavel þau hagkvæmnirök sem liggja að baki hugmyndinni en hef þó vissar áhyggjur af því að kjörið til stjórnlagaþings myndi falla í skuggann af því tilfinningaþrungna máli sem Icesave-deilan svo sannarlega er,“ segir Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur sem kjörinn var á stjórnlagaþing í kosningunni sem Hæstiréttur ógilti. Ríkisstjórnin ákveður á morgun hvort stjórnlagaþingskosning verður samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu. Eiríkur telur að Icesave-málið gæti truflað stjórnlagaþingskosninguna og hugsanlega skekkt myndina.

Þjóðaratkvæðagreiðsla

» Atkvæði voru greidd um Icesave-lögin sem forseti Íslands synjaði staðfestingar í byrjun árs 2010, samkvæmt sérstökum lögum. 93% þeirra sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni höfnuðu gildistöku laganna.
» Nú reynir í fyrsta skipti á lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem samþykkt voru síðastliðið sumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert