Ekki kosið til stjórnlagaþings

Kosið var til stjórnlagaþings í lok síðasta árs.
Kosið var til stjórnlagaþings í lok síðasta árs. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ekki verður kosið til stjórnlagaþings að nýju heldur verður lögð fram tillaga á Alþingi um að þeir sem upphaflega voru kosningar á þingið verði skipaðir í sérstakt stjórnlagaráð.

Meirihluti starfshóps sem falið var að koma með tillögu um viðbrögð við ákvörðun Hæstaréttar að ógilda kosninguna komst að þessari niðurstöðu. Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, studdi ekki þessa tillögu.

Í tillögu meirihlutans segir að virða beri niðurstöðu Hæstaréttar sem dæmdi kosninguna ógilda, en bregðast verði við þeirri pólitísku stöðu sem upp sé komin í málinu. Þessi niðurstaða sé vænlegasta leiðin til að hægt verði að halda áfram að vinna breytingum á stjórnarskránni.

Í bókun Birgis Ármannssinar segir að Sjálfstæðisflokkurinn telji brýnt að endurskoða stjórnarskrána og styðji slíka endurskoðun. Samkvæmt gildandi stjórnarskrá sé Alþingi stjórnlagaþing og geti eitt breytt stjórnarskrá og það megi ekki víkja sér undan þeirri ábyrgð, enda ekki ástæða til.

„Eftir það klúður við framkvæmd kosninga til stjórnlagaþings skv. l. 90/2010, sem leiddi til ógildingar kosninganna í Hæstarétti, telur undirritaður fulltrúi Sjálfstæðisflokksins að ekki eigi að halda áfram með hugmyndir um ráðgefandi stjórnlagaþing með tilheyrandi kostnaði og leggur til að haldið verði áfram starfi stjórnlaganefndar, þ.e. að safna gögnum um stjórnarskrármál og setja fram hugmyndir um breytingar á stjórnarskrá og útfærslu þeirra. Jafnframt hvetur undirritaður til þess að frekari undirbúningur að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði styrktur með almennri umræðu í samfélaginu og rannsóknum á stjórnarskrármálum, um leið og leitað verði ráðgjafar innlendra og erlendra sérfræðinga. Sú vinna verði á forræði Alþingis,“ segir í bókun Birgis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka