Hæstiréttur ógilti dóm héraðsdóms

mbl.is/GSH

Hæstiréttur ógilti í dag sýknudóm yfir fyrrverandi starfsmanni Landsbankans, sem ákærður var fyrir að hafa dregið sér 118 milljónir meðan hann starfaði hjá bankanum.

Maðurinn hélt því fram að vísa bæri málinu frá Hæstarétti þar sem sérstakur saksóknari færi með mál tengd hruni íslenska bankakerfisins og að ríkissaksóknari hefði með ummælum sínum á opinberum vettvangi látið í ljós huglæga afstöðu sína til sérstaks hæfis síns. Hæstiréttur hafnaði kröfunni þar sem millifærslan á fé NBI Holding Ltd, félags á vegum bankans, hefði ekki tengst hruni bankanna þótt hún hefði átt sér stað á tímamarki þegar upplausnarástand ríkti hjá Landsbankanum vegna hrunsins.

Með vísan til vitnisburðar fyrrverandi bankastjóra og regluvarðar Landsbankans auk samnings milli bankans og tilgreindrar lögmannsstofu á eyjunni Guernsey taldi Hæstiréttur ljóst að Landsbankinn hefði í raun haft fulla stjórn á félaginu NBI Holding og að Landsbankinn og dótturfélag hans hefðu átt að njóta góðs af eignum NBI Holding. Sú lýsing í ákæru að NBI Holding hefði verið félag á vegum Landsbankans væri því rétt. Í dómi Hæstaréttar var komist að þeirri niðurstöðu að héraðsdómur hefði ekki fellt dóm á málið með tilliti til allra gagna sem fyrir honum lágu.
Hæstiréttur ómerkti því dóminn og vísaði málinu til meðferðar í héraðsdómi á ný.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert