Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) hvetja íslensk stjórnvöld til að láta af fyrirætlunum sínum að leggja á sérstakan skatt á flugfarþega.
Framkvæmdastjóri IATA, Giovanni Bisignani, segir að fyrirhuguð skattlagning sé afar undarleg. Hann bendir á að íslenskt efnahagslíf sé enn ekki búið að jafna sig að fullu á fjármálahruninu og því skuli menn ekki „drepa gæsina sem verpir gulleggjunum,“ segir Bisignani.
Hann bendir á að framlag ferðaþjónustunnar til landsframleiðslunnar sé með því mesta sem gerist í Vestur-Evrópu.
Bisignani segir að hlúa eigi að flugi en ekki kæfa það með sköttum.
Sjá fréttatilkynningu á vef IATA.
Frumvarp til laga um farþega- og gistináttagjald.
„Reiknað er með því að gjöld þessi, eins og upp er lagt með, skili ríkissjóði um 400 milljónir kr. eða af þeim innheimtist um 400 milljónir kr. í tekjur árlega,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra þegar hann mælti fyrir frumvarpinu.
„Þar af er reiknað með að farþegagjaldið komi til með að skila rúmlega helmingi eða um 216 milljónum kr. og gistináttagjaldið um 184 miljónir kr.,“ sagði hann ennfremur.