„Lagalega séð ég ekki neitt þessu til fyrirstöðu. Þarna er verið að skipa ráðgefandi nefnd eins og gjarnan er gert. Ég er sáttur við þessa lendingu,“ segir Ómar Ragnarsson, einn frambjóðenda til stjórnlagaþings, um þá tillögu að skipað verði stjórnlagaþingsráð.
„Langflest okkar [stjórnlagaþingsframbjóðendanna 25] höfum viljað að þessu starfi verði haldið áfram. Það var einróma álit hjá okkur að hvaða leið sem yrði farin væri æskilegt að tillögur okkar yrðu fyrst lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þingið tæki þær til meðferðar.
Ég bendi á að 74% þeirra sem tóku afstöðu um þetta mál nýlega í skoðanakönnun vildu að starfinu yrði haldið áfram og yfirgnæfandi meirihluti þeirra vildi að þessi leið yrði farin,“ segir Ómar.