Ekki dæmt í málinu í New York

BOB STRONG

Dómari í New York hefur ákveðið að fallast á þau skilyrði sem sjömenningarnir í Glitnismálinu skrifuðu undir. Þetta þýðir að ekki verður dæmt í málinu fyrir dómstóli í New York.

Slitastjórn Glitnis höfðaði mál gegn sjö fyrrverandi eigendum og stjórnendum Glitnis fyrir dómstóli í New York. Dómari ákvað að vísa málinu frá gegn því skilyrði að sjömenningarnir skrifuðu undir yfirlýsingu um að hægt væri að ganga að eignum þeirra í Bandaríkjunum ef á Íslandi félli dómur slitastjórn í hag.

Fimm þeirra gengu frá yfirlýsingu strax og sagði Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, í vikunni að dómari hefði ákveðið að taka málið upp aftur vegna þess að ekki hefðu allir sjömenningana fallist á skilyrði dómarans. Pálmi Haraldsson og Hannes Smárason skiluðu inn yfirlýsingum í þessari viku og svo virðist sem dómarinn hefði ákveðið að láta þar við sitja.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma Haraldssonar, staðfesti í samtali við mbl.is að hann hefði fengið upplýsingar frá lögmanni Pálma í New York um að dómarinn, Charles E. Ramos, hefði sagt að málið yrði ekki tekið fyrir hjá dómstólnum. Lögmaður Glitnis hefði þá spurt dómarann hvort hann væri tilbúinn til að endurskoða afstöðu sína, en hann hefði þá svarað að líkur á því væru engar. Málið myndi fara til Íslands.

Ekki hefur náðst í Steinunni Guðbjartsdóttur, formann slitastjórnar Glitnis.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert