Komum fækkaði um 1,2%

mbl.is/Ómar

Komum sjúklinga til Landspítalans fækkaði um 1,2% á síðasta ári, að því er kemur fram í starfsemistölum fyrir árið 2010 sem koma út í næstu viku. Alls eru þetta rúmlega 103.000 einstaklingar.

Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, greinir frá þessu í föstudagspistli sem er birtur á vef sjúkrahússins. Hann tekur fram að þetta séu einstaklingar sem margir hverjir leiti oft til spítalans en ef sérhver sé einungis talinn einu sinni þá sé um 103.384 einstaklinga að ræða árið 2010. 

Hann segir að inniliggjandi sjúklingum hafi að meðaltali fækkað um 4,4%, legum um 5,1% og  legudögum um 4,4%. Sjúkrahúslega hafi styst um 3,6% að meðaltali og sé nú 6,7 dagar.

Skurðaðgerðum hafi fækkað um 1,9%, fæðingum um 2,3% og komum á allar bráðamóttökur spítalans um 3,2%. Komur á dag- og göngudeildir séu nánast jafnmargar (fækki um 0,6%).

Þá segir Björn að rannsóknum á rannsóknarsviði hafi fækkað um 16,7% en stefnt hafi verið að fækkun þeirra. 

„Það eru færri rúm opin allan sólarhringinn og færri starfsmenn að vinna þau verk sem vinna þarf.  Allt þetta hefur aukið álag á spítalanum en á móti kemur, að einhverju leyti, að minni starfsemi var á spítalanum 2010 en árið 2009,“ skrifar Björn. 

„Óljóst er hvort þessi fækkun sé til frambúðar en margt bendir til þess að starfsemi spítalans fari nú aftur vaxandi samkvæmt gögnum um starfsemina núna í desember og janúar síðastliðnum,“ segir hann ennfremur.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert