Launahækkun gildi frá 1. mars

Finnbjörn A. Hermannsson
Finnbjörn A. Hermannsson

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Samiðnar, segir gengið út frá því að eingreiðsla, sem samkomulag er um að greidd verði takist kjarasamningar milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, gildi frá 1. mars.

Upphaflega var stefnt að því að ljúka viðræðum fyrir febrúarlok. Finnbjörn segir að eftir að SA og landsamböndin náðu samkomulagi um aðferðarfræðina hafi menn ákveðið að láta ekki tímapressu ráða för og reyna frekar að vanda allan undirbúning við gerð kjarasamninga. Hann segir að samkomulag sé um að ef samningar takist verði greidd eingreiðsla og að hún miðist við 1. mars. Það fari svo eftir því hvenær og hvort samningar takist hvenær hún verði greidd. Finnbjörn segir að engin niðurstaða sé komin um hversu há þessi eingreiðsla verði eða hvort hún verði krónutala eða prósentuhækkun.

Finnbjörn segir að vinnan gangi vel fyrir sig. Menn séu að ræða ýmsar sérkröfur sem kosti ekki mikið og leysa úr ágreiningi um túlkun samninga. Eins hafi menn verði að fara yfir hluti sem tengjast gjaldþroti fyrirtækja og fleiri atriði.

Finnbjörn segir að í viðræðum við stjórnvöld muni ASÍ leggja megináherslu á jöfnun lífeyrisréttinda. Hann segir að ASÍ sé ekki með útfærðar hugmyndir í því sambandi, en nauðsynlegt sé að stíga skref í þessa átt. Eins leggi ASÍ mikla áherslu á atvinnumál og aðgerðir til að draga úr atvinnuleysi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert