Mælingar á fjarlægð milli sorpíláta og sorpbíla standa nú yfir í Reykjavík. Ef fjarlægðin er meiri en 15 metrar þarf að gera breytingar eins og að færa sorpgerðið, flytja tunnurnar nær á sorphirðudögum eða kaupa aukaþjónustu.
Í tilkynningu frá umhverfis- og samgöngusviði borgarinnar segir að 1. apríl miðist sorphirðan við 15 metra fjarlægð.
„Draga má verulega úr kostnaði við sorphirðu í Reykjavík með því að færa sorpílátin nær götu og sorphirðubílum. Starf sorphirðufólks er bæði tímafrekara og vandasamara ef ílát standa til að mynda bak við hús. Gönguvegalend við sorphirðu er fjórföld fjarlægð tunnu frá bíl. Ef sorptunna er 30 metra frá bíl, þarf að ganga 120 metra til að sækja, losa, skila og ganga til baka. Skilyrðin um 15 metra hámarksfjarlægð voru liður í því að halda sorphirðugjöldum óbreyttum, bæta vinnuaðstæður sorphirðufólks og jafna göngulendir,“ segir í tilkynningu.
„Þeir sem þurfa að gera ráðstafanir vegna þess að sorpílátið er of langt í burtu fá bréf inn um lúguna sem lýsir því hvernig bregðast megi við. Eitt úrræðið felst í því að kaupa viðbótarþjónustu: að sækja svarta tunnu kostar 4.800 kr. á ári, græn og blá tunna kostar 2.400 kr. á ári.
Skilyrði um metrafjölda milli íláta og sorphirðubíla gilda í mörgum borgum í Evrópu og nokkrum öðrum sveitarfélögum á Íslandi,“ segir ennfremur.