„Ég tel að það sé hægt að yfirstíga þá annmarka sem menn sjá á stjórnlagaráðsleiðinni og að þeir séu ekki svo alvarlegir að hún sé ekki fullkomlega fær leið,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður VG, um afstöðu sína til hugmynda um stjórnlagaráð.
Steingrímur segir stöðuna sem upp er komin eftir ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni óneitanlega erfiða.
„Það má segja að það sé enginn augljós eða góður kostur í stöðunni eftir þessa uppákomu með ógildingu kosningarinnar. Ég er að fara yfir skilagrein samráðsnefndarinnar um stjórnlagaþingið, rétt eins og aðrir þingmenn. Það þarf einhvern veginn að ákveða hvernig næstu skref verða tekin í þessu máli.
Þau [nefndarmenn] komast að tiltekinni niðurstöðu og ég var búinn að segja það áður að ég væri alveg til í að standa að þeim kosti sem að skástur væri talinn og helst gæti sameinað menn um næstu skref. Þannig að ég get alveg staðið að því ef um það verður helst samstaða, að fara þessa stjórnlagaráðsleið.“
- Hvað með hinn möguleikann, að efna til uppkosningar?
„Nefndin fór yfir allt málið og hallaðist að þessari niðurstöðu að lokum. Þannig að ég vil skoða þá leið og væri tilbúinn til þess fyrir mitt leyti að standa að því að fara hana,“ segir Steingrímur og á við mögulega skipan í stjórnlagaráð.