Strætó hættir akstri fyrr á kvöldin

Breytingar hjá strætó taka gildi á sunnudag.
Breytingar hjá strætó taka gildi á sunnudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breytingar verða gerðar á akstri Strætó á sunnudaginn. Strætó mun frá þeim tíma ljúka akstri klukkutíma fyrr öll kvöld og hefja akstur tveimur klukkustundum síðar á laugardögum. Jafnframt hætta leiðir 2 og 5 að aka á kvöldin og um helgar.

Ástæður þessara almennu breytinga er samdráttur á framlögum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til Strætó bs. Auk ofangreindra breytinga verða einnig breytingar á leiðum 16, 18, 19, 28, 35 og 36.
 
Breytingin á kvöldakstri leiðir til þess að síðasta ferð allra strætisvagna verður klukkustund fyrr en áður. Þetta þýðir að síðasta ferð allra vagna fellur niður að leiðum 1, 3 og 6 undanskildum, en þar falla síðustu tvær ferðir kvöldsins niður. Á laugardögum fer fyrsta ferð allra vagna tveimur klukkustundum síðar af stað en áður.
 

Vatnsendahverfi tengist Mjódd

Akstur á leið 28 í Kópavogi breytist þannig að leiðin mun lengjast og tengja Vatnsendahverfin við Mjódd. Að auki mun leiðin tengjast Þingum. Þar með er komið til móts við óskir íbúa í Vatnsendahverfi um betri tengingu við leiðakerfi Strætó bs. og gera má ráð fyrir að ferðatími íbúa hverfisins styttist um allt að 20 mínútur.
 
Jafnframt verður gerð sú breyting í Kópavogi að leið 36 hættir akstri en akstur á leið 35 verður aukinn á móti á kvöldin og um helgar. Eftir 27. febrúar mun leið 35 þannig ávallt aka á 30 mínútna fresti, hvort sem það er á dagtíma virka daga, á kvöldin eða um helgar. Með þeim hætti er Strætó bs. gert mögulegt að auka þjónustuna á leið 28. Vegna þess að leið 2 hættir akstri á kvöldin og um helgar er farþegum í Salahverfi bent á að nota leið 28 á þeim tímum.
 
Eftir 27. febrúar mun leið 18 í Grafarholti tengjast Korputorgi auk þess sem aksturinn breytist þannig að þegar komið er úr vestri er farið inn í Grafarholt við Víkurveg og keyrt í gegnum Grafarholtið áður en farið er í Úlfarsárdal. Þar með snýst hringurinn um Grafarholtið við og farþegar þurfa að hafa í huga að vagninn kemur hinum megin við götuna eftir breytinguna.
 
Þessi breyting er gerð til að koma til móts við óskir íbúa sem hafa sagt að núverandi akstursleið, þar sem farþegar í Grafarholti þurfa alltaf að fara í gegnum Úlfarsárdal á leið sinni niður í bæ, taki of langan tíma. Hér er því um þjónustubót að ræða, því auk þess að tengja nú Korputorg við strætisvagnakerfið í fyrsta sinn styttir breytingin ferðatíma íbúa Grafarholts nokkuð.
 

Breytingar á akstri í Árbæ og Norðlingaholti

Til að viðhalda þjónustustigi í Árbæ og Norðlingaholti eftir að leið 5 hættir akstri á kvöldin og um helgar verður akstur á leið 19 aukinn. Eftir 27. febrúar mun því leið 19 aka á hálftíma fresti allan daginn og einnig á kvöldin og um helgar.
 
Vegna lítillar nýtingar verður akstri á leið 16 milli Nauthóls/HR og Hlemms hætt. Leið 19 mun eftir breytingarnar aka sömu leið á hálftíma fresti allan daginn, á kvöldin og um helgar.
 
Farþegum er bent á að kynna sér nánar nýtt leiðakerfi og tímatöflur á vefnum Strætó.is og í nýrri leiðabók sem fæst á öllum sölustöðum Strætó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert