Tafir sem orðið hafa í ferðum Herjólfs á milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar að undanförnu stafa af byrjunarörðugleikum sem komið hafa upp við uppsetningu á nýju bókunarkerfi. Kerfið er smám saman að komast í lag en það mun auðvelda mjög afgreiðslu farþega skipsins.
Nokkur bréf hafa birst á vefmiðlum í Vestmanneyjum síðustu daga þar sem kvartað er undan seinkun á skipinu, lakari þjónustu um borð, þrifum og viðhaldi.
Kona sem fór frá Þorlákshöfn um síðustu helgi skrifar að brottför skipsins hafi seinkað um 40 mínútur vegna tafa við skráningu farþega um borð. Sjálf hafði hún pantað og greitt farmiða sinn áður en gat ekki prentað hann út fyrirfram. Yfir 300 farþegar voru í ferðinni og bendir bréfritari á að þar hafi mikill tími farið forgörðum. Tafir hafa orðið í fleiri ferðum.
Guðmundur Pedersen, rekstrarstjóri Eimskips í Vestmannaeyjum, segir að hnökrar hafi orðið við innleiðingu á nýju bókunarkerfi fyrir skipið. Seinkun hafi orðið þegar margir farþegar hafi komið síðasta hálftímann fyrir brottför. Það standi til bóta með fullri virkni kerfisins.
Hann segir að nýja kerfið sé mun betra en það eldra enda víða notað í sambærilegum rekstri. Segir hann að bókunarkerfið taki á öllum þáttum. Meðal annars verði hægt að bóka ferðir og breyta á netinu, fá allar upplýsingar í smáskilaboðum og tölvupósti og prenta út miða. Þá standi til að koma upp sjálfsölum í Landeyjahöfn og Vestmannaeyjum sem farþegar geti nýtt til að prenta út farseðla ef þeir hafa ekki gert það áður.
„Það hefur verið lögð mikil vinna í þetta kerfi enda er það hugsað til framtíðar,“ segir Guðmundur.
Hann andmælir því að viðhaldi og þrifum um borð sé ábótavant. Nýlega hafi klefarnir verið yfirfarnir og gert við það sem þurfti. Þá sé skipinu haldið hreinu.
Herjólfur hefur siglt til Þorlákshafnar síðustu vikur vegna þess að Landeyjahöfn er lokuð. Dýpkunarskipið Skandia getur ekki athafnað sig við höfnina vegna veðurs og bíður átekta í Vestmannaeyjahöfn.
Ekki er útlit fyrir að hægt verði að opna höfnina næstu daga.