Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður mælti eindregið með því í minnisblaði til samráðsnefndar um stjórnlagaþing að kosið yrði að nýju með sömu frambjóðendum. Morgunblaðið hefur þetta eftir traustum heimildum en Gestur vildi ekki tjá sig um málið þegar það var borið undir hann.
Lagaprófessorarnir Ragnhildur Helgadóttir og Róbert Spanó gagnrýna þá hugmynd að þeim 25 sem mest fylgi hlutu í stjórnlagaþingskosningunum verði boðið að taka sæti í stjórnlagaráði, en meirihluti samráðsnefndarinnar mun leggja það til við Alþingi.
Ætlunin er að stjórnlagaráðið skili þinginu tillögum að stjórnarskrárbreytingum að starfi sínu loknu. Þrír stjórnlagaþingsframbjóðenda sögðust í samtali við Morgunblaðið vilja að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögurnar.
Ljóst er að ekki ríkir eining um málið á þingi, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í nefndinni skilaði séráliti. Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir niðurstöðu nefndarinnar ekki lýsa afstöðu flokksins, þó fulltrúi hans hafi stutt hana. Þá herma heimildir að ríkisstjórnin sé ekki á einu máli, og að lendingu sé langt í frá náð.