Vilja sameina efnahagsbrotadeild og sérstakan saksóknara

Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari. mbl.is/Golli

Samstaða er hjá ríkislögreglustjóra, sérstökum saksóknara og ríkissaksóknara um að sameina efnahagsbrotadeild og embætti sérstaks saksóknara. Innanríkisráðherra áformar að sameina embættin.

Í frétt frá ríkislögreglustjóra segir að hann hafi um árabil bent á að móta þurfi framtíðarfyrirkomulag rannsókna og ákærumeðferðar í skatta- og efnahagsbrotamálum og haft frumkvæði að umræðu um stöðu málaflokksins og hvernig efla megi hann og skipuleggja. Í því samband hefur verið bent á breytingar á stofnanakerfi ríkisins og einfaldari og skilvirkari leiðir en núverandi skipan gerir ráð fyrir og meðal annars horft til fyrirkomulags þessara mála í Noregi.

Fram kemur á vef innanríkisráðuneytisins, að Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, hafi í dag kynnt fyrir ríkisstjórninni áform sín um sameiningu embættanna tveggja. Sé þessi sameining liður í undirbúningi að frekari nýskipan á rannsókn og saksókn fjármuna- og efnahagsbrota.

Ráðuneytið segir, að rannsóknum og ákærumeðferð fjármuna- og efnahagsbrota sé nú sinnt hjá mörgum stofnunum. Þyki núverandi skipan flókin, ógegnsæ og ónákvæm auk þess sem mikil hætta sé á tvíverknaði. Efnhags- og fjármunabrot sæti nú rannsókn og ákærumeðferð að einhverju eða öllu leyti hjá eftirtöldum stofnunum: efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, embætti sérstaks saksóknara, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, skattrannsóknarstjóra, tollstjóra, Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu og ríkissaksóknara.

Með sameiningu rannsókna fjármuna- og efnahagsbrota í eina efnahagsbrotarannsóknarstofnun og með einfaldara ferli rannsóknar og málsmeðferðar aukist skilvirkni rannsókna, sem stuðlað geti að bættri nýtingu fjármuna og margs konar samlegðaráhrifum. Jafnframt aukist fagleg geta til rannsókna á brotastarfsemi með öflugum þverfaglegum hópi sérfræðinga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert