„Sól á Suðurlandi tekur heilshugar og eindregið undir kröfu Græna netsins um að Landsvirkjun rifti siðlausum samningum við Flóahrepp vegna Urriðafossvirkjunar. Og að samningum og skipulagi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi verði rift líka,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.
„Sólin hefur árum saman bent á það óréttlæti sem felst í uppkaupum á skipulagi og óskyldum hlutum, með gylliboðum rétt fyrir kosningar og mörgum fleiri atriðum sem særa réttlætis- og samfélagskennd margra heimamanna við Þjórsá.
Græna netið bendir einnig á þá mikilvægu staðreynd að sveitarstjórn Flóahrepps var keypt til fylgilags við Landsvirkjun sólarhring eftir að hún hafði hafnað því að setja virkjun inn á skipulag. Um þetta segir Græna netið: Þegar sveitarfélag ákveður að setja umdeilda virkjun ekki á aðalskipulag er siðlaust að framkvæmdaraðili bjóði íbúum þess óskyldar umbætur til að breyta niðurstöðu skipulagsins. Ekki er hægt að líkja því við annað en að bera fé í dóminn nema ef vera skyldi að bjóða gler fyrir gull.
Þetta er mergurinn málsins og ekki í takt við þá ábyrgu stefnu sem Landsvirkjun segist nú fylgja. Sólin tekur einnig undir með Græna netinu um að breyting á viðhorfum Landsvirkjunar … „til orkunýtingar og samráðs við stjórnvöld. Mikilvægt er að fyrirtæki í opinberri eigu fylgi ábyrgri eigendastefnu þar sem virðing er borin fyrir umhverfinu, réttur komandi kynslóða til þess er virtur og siðferði fyrirtækis er hafið yfir allan vafa“.
Sól á Suðurlandi tekur undir hvert orð í yfirlýsingu Græna netsins og skorar líka á „Landsvirkjun að rifta þeim ósiðlegu samningum við Flóahrepp“ sem ættu nú orðið að vera öllum landsmönnum kunnir.