Lilja Mósesdóttir alþingismaður VG segist vera andvíg þeirri leið sem starfshópur leggur til varðandi skipan í stjórnlagaráð, en hópurinn leggur til að ekki verði kosið aftur á stjórnlagaþing heldur verði 25 manna sem hlaut kosningu skipaður í stjórnlagaráð þrátt fyrir ógildingu Hæstaréttar á kosningunum.
„Ég er sammála Ögmundi og Sigmundi Davíð. Stjórnlagaráð er hjáleið framhjá niðurstöðu Hæstaréttar sem dregur úr trúverðugleika þess. Ég vil uppkosningu eða aðrar kosningar til stjórnlagaþings,“ segir Lilja á Facebook-síðu sinni. Efasemdir eru því bæði í VG og Framsóknarflokki um þá tillögu sem nefndin lagði til. Sjálfstæðisflokkurinn er líka andvígur tillögunni.