Þótt Norðurál hafi handbært fé til fjárfestinga í álveri í Helguvík upp á 304 milljónir dollara, eða sem svarar 36 milljörðum króna, er framtíð verkefnisins í Helguvík í fullkominni óvissu, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.
Norðurál, dótturfélag Century, hefur þegar lagt um 17 milljarða króna í verkefnið, en eins og kunnugt er hefur ekki tekist að ljúka raforkusölusamningum við Orkuveitu Reykjavíkur og HS orku, sem Magma Energy á 98,5% hlut í.
Norðurál vísaði ágreiningi sínum við HS orku vegna raforkusamninga í sænskan gerðardóm, sem kemur saman hér á landi í lok maí. Ekki er búist við niðurstöðu gerðardómsins fyrr en líða tekur á sumar.
Þetta kemur fram í fréttaskýringu í Sunnudagsmogganum í dag. Þar kemur fram að meiri svartsýni en bjartsýni gætir meðal viðmælenda blaðsins um framtíð verkefnisins.