„Samráðsnefndin um stjórnlagaþingsmálið er búin að leggja til að fara í stjórnlagaráð og úr því sem komið er held ég að það sé skynsamlegasta leiðin,“ segir Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, um afstöðu sína til stjórnlagaráðs. Hann segir rétt að hlusta á sjálfstæðismenn í málinu.
- Hvað finnst mér um það sjónarmið innanríkisráðherra að fara frekar leið uppkosningar?
„Það er sjónarmið sem ég hef mikinn skilning á og studdi sjálfur. Það er sú leið sem ég hefði viljað fara. Hins vegar verður maður að taka mið af pólitískri stöðu málsins. Sjálfstæðisflokkurinn lagði mjög mikla áherslu á að það í utandagskrárumræðum á þriðjudaginn að blanda ekki þessu tvennu saman,“segir Róbert og á við stjórnlagaráðsmálið og Icesave-deiluna.
„Ef að við ætluðum að fara með uppkosninguna á sama tíma og Icesave-atkvæðagreiðslan fer fram þyrftum við að gera breytingar á lögunum um stjórnlagaþingið. Það kallar á samvinnu og yfirlegu í þinginu og þegar það er strax búið að gefa það mjög sterklega í skyn að það náist ekki samkomulag verða menn einfaldlega að endurmeta stöðuna. Mér finnst rétt að hlusta á Sjálfstæðismenn í þessu máli.
Þeirra rök eru efnisleg og það ber að taka mið af þeim. Mér finnst mjög mikilvægt að það ríki sátt um það að halda Icesave utan við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þetta breytir forsendum málsins í mínum huga. Mér finnst ekki koma til greina að halda tvennar kosningar, einar um Icesave og aðra um stjórnlagaþingið. Þannig að ég held að úr því sem komið var að þetta sé besta leiðin.“
- Hvernig skynjarðu afstöðu flokksbræðra þinna til málsins.
„Ég held að hún sé að mörgu leyti mjög sambærileg minni. Menn vildu auðvitað fara uppkosningaleiðina margir hverjir, en hafa skilning á því að við þurfum að leggja áherslu á að það sé sæmilegur friður í kringum Icesave-atkvæðagreiðsluna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið með okkur að stórum hluta í því máli og okkur ber að hlusta á aðvörunarorð þeirra. Þeir vilja ekki blanda stjórnlagaþinginu saman við Icesave-atkvæðagreiðsluna. Þetta er „pragmatísk“ pólitísk nálgun sem tekur mið af stöðunni eins og hún er. Menn geta haft óskir um að gera þetta með einum eða öðrum hætti. En í pólitík þurfa menn líka að vera tilbúnir að sýna sveigjanleika og gera málamiðlanir.“