Áfram talsverð skjálftavirkni

Jarðskjálftarnir eiga upptök sín við Kleifarvatn.
Jarðskjálftarnir eiga upptök sín við Kleifarvatn. mbl.is/RAX

Skjálftavirkni hefur haldið áfram við Kleifarvatn í dag, en skjálftarnir eru minni en í morgun. Frá miðnætti til kl. 14 í dag höfðu um 380 skjálftar komið fram á mælum Veðurstofu Íslands.

Sigþrúður Ármannsdóttir, landfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að dregið hafi úr skjálftavirkni eftir hádegið. Núna séu þetta aðallega smáskjálftar. Hún útilokar ekki að skjálftavirkni aukist aftur. „Það hafa komið hviður síðan þessi skjálftavirkni hófst á fimmtudagskvöld og þetta getur haldið áfram.“

GPS-mælar á svæðinu sýna hreyfingar á jarðskorpunni. Sigþrúður segist hins vegar ekki treysta sér til að svara því hvort kvikuhreyfingar séu gangi. Hún minnir á að jarðskjálftar séu algengir við Kleifarvatn og þetta sé mikið jarðhitasvæði.

Veðurstofan fylgist vel með jarðskjálftunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert