Gæti beitt sér í Icesave-deilunni

Andstæðingar fyrri samningsins skora á forsetann að hafna honum.
Andstæðingar fyrri samningsins skora á forsetann að hafna honum. Rax / Ragnar Axelsson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, útilokar ekki að hann muni beita sér gegn nýja Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl með málafylgju í þingi og í fjölmiðlum.

„Við erum ekki búin að fara yfir það hvort að við beitum okkur sérstaklega í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar. Ég var nú á því að þegar forsetinn synjaði núna að stjórnmálaflokkarnir væru ekki mikið að beita sér í málinu. Ef þetta hins vegar þróast þannig að þetta máli þróist pólitískt - að það verði tekist á um það á þinginu - að þá mun maður eflaust láta til sín taka í því. Þá er ég tala út frá stöðunni eins og hún er núna.

Ég ítreka hins vegar að ef málið dregst inn í stjórnmálaumræðuna að þá er það kannski óhjákvæmilegt að flokkarnir láti til sín taka,“ segir Sigmundur Davíð.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, að hún hefði tekið ákvörðun um að greiða atkvæði með Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni í apríl. Siv sat hjá þegar greidd voru atkvæði um Icesave-frumvarpið á Alþingi fyrr í þessum mánuði. 

Gagnrýndi þversagnir í málflutningi

Sigmundur Davíð var gagnrýninn á nýja samninginn í þingræðu 15. desember sl.

Þar sagði formaður Framsóknar eftirfarandi:

„Frú forseti. Allt er þetta jafnþversagnakennt og fyrr. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. forsætisráðherra hafi verið að reyna að halda því fram að vegna þess að ástandið er orðið svona miklu betra núna í framhaldi af því að gamla Icesave-samningnum var hafnað — það kom ekki þessi ísöld sem Samfylkingin talaði um. Þvert á móti telst Ísland núna vera traustari lántakandi en Spánn. Skuldatryggingarálag Íslands hefur lækkað jafnt og þétt frá því að gamla Icesave-samningnum var hafnað — séu aðstæður allar miklu betri núna til að semja.

Spurningunni er samt ekki svarað um hvernig hæstv. forsætisráðherra ætlar að færa rök fyrir því að munurinn á kostnaðinum sé ekki nema rúmir 100 milljarðar kr. þegar það er svart á hvítu ljóst að munurinn á því eins og þetta var reiknað á sínum tíma og því sem ríkisstjórnin heldur fram að sé kostnaðurinn núna nemur 400–500 milljörðum kr.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert