Geta dregið úr sorpbrennslu um 60%

Flogið yfir Vestmannaeyjar.
Flogið yfir Vestmannaeyjar. mbl.is/RAX

„Það þarf að nálgast þetta raunhæft og 4.200 manna byggðarlag getur ekki ráðist í 600 milljón króna fjárfestingu til þess að ná rykmengun frá sorpbrennslustöð niður fyrir 10 milligrömm á rúmmetra þegar rykmengun á götum í Reykjavík mælist stundum í kringum 600 milligrömm," segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Eins og Morgunblaðið sagði frá í gær hefur Umhverfisstofnun sent Vestmannaeyjabæ bréf um að áformað sé að svipta sorpbrennslu bæjarins starfsleyfi þar sem losun á ryki í útblásturslofti sé ítrekað yfir mörkum. Elliði segir að bæjarstjórn muni bregðast við með að útskýra afstöðu sína fyrir yfirvöldum. „Við teljum okkur geta náð heildarlosun sorpbrennslustöðvarinnar niður um 60% á ári, fyrst og fremst með því að brenna 60% minna af sorpi," segir Elliði. Þetta sé raunhæfur möguleiki með því að ráðast í aukna flokkun. Endurnýjanlegt sorp megi þá flytja burt og lífrænt notað til moltugerðar, en „hefðbundið heimilissorp" verði áfram að brenna.

Elliði telur að horfa verði til sérstöðu Vestmannaeyja í þessu samhengi. „Við erum næststærsti þéttbýliskjarni á Íslandi utan Suðvesturhornsins og magn sorps er í samræmi við það, en sérstaða okkar er að vera á eyju og geta því ekki gert neitt annað við sorpið en að brenna því." Elliði segir það furðulegt af það hafi ekki áhrif á afstöðu yfirvalda að bærinn geti dregið úr útblæstri um 60%.

„Vandamálið er hinsvegar það að hver rúmmetri sem við blásum kemur til með að innihalda jafnmikið af ryki eftir sem áður. Þótt við drögum svona mikið úr heildarlosun þá miðar reglugerð yfirvalda eingöngu við það hvað við losum mikla mengun í hverjum rúmmetra af lofti sem fer um strompinn. Við náum aldrei koma til með að ná þessum skilyrðum Umhverfisstofnunnar. Þetta styðst ekki við veruleikann."

Elliði segir málið því velta á því hversu mikinn skilning Vestmannaeyjabær fái fyrir sérstöðu sína. „Við tökum þetta alvarlega og það er mikilvægt að ná úrbótum í umhverfismálum, en það þarf að setja hlutina í samhengi við þann veruleika sem við störfum í en ekki miða blint út frá einhverjum þröngum evrópskum reglugerðum."

Elliði Vignisson.
Elliði Vignisson. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert