Ingibjörg Sólrún segir þjóðina ekki skuldbundna

Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í forystu …
Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir voru í forystu fyrir ríkisstjórn landsins þegar hrunið varð. Mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir það rangt að Alþingi hafi í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde skuldbundið íslensku þjóðina til að greiða Icesave skuldina. Ingibjörg birtir stutta athugasemd „af gefnu tilefni" á Facebook síðu sína í dag þar sem hún hafnar staðhæfingu í leiðara Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur á vefritinu Smugunni.

Í leiðaranum segir að íslenska þjóðin geti siðferðislega ekki tekið afstöðu til annarra hluta en á hvaða vöxtum og með hvaða skilmálum endurgreiðslur eigi að vera, vegna þess að sama hvað mönnum kunni að finnast um lagalega stöðu málsins þá hafi þingið þegar skuldbundið þjóðina til að greiða skuldina, í stjórnartíð Geirs H. Haarde.

„Þetta er ekki rétt," segir Ingibjörg Sólrún. „Alþingi samþykkti þann 5. des 2008 að ganga til viðræðna um Icesave á tilteknum grundvelli. Þetta var þingsályktun sem byggðist á mati á stöðunni á þeim tímapunkti og fól í sér pólitíska skuldbindingu þáverandi stjórnvalda að fara samningaleiðina. Ályktunin skuldbindur þjóðina ekki með neinum hætti að þjóðarrétti."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert