Fréttir um að lánshæfismat Íslands hafi versnað vegna synjunar forsetans á nýju Icesave-lögunum eru byggðar á sandi, að mati Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann telur fregnir af slíkum efnahagsóförum beinlínis rangar.
„Við höfum séð - eins og rökrétt er - að í hvert skipti sem að menn hafa færst frá Icesave-kröfunum, eins og þegar þeim var hafnað á sínum tíma í þjóðaratkvæðagreiðslu, að þá hefur skuldatryggingaálag, mælikvarðinn á lánstraust Íslands, lagast. Hins vegar var því haldið fram í fréttum að skuldatryggingarálag hefði rokið upp úr öllu valdi þegar forsetinn synjaði nýju lögunum. Það er einfaldlega rangt. Þessar fréttir hafa verið rangar.“
Varnarþingið á Íslandi
Sigmundur Davíð víkur því næst að dómstólahlið málsins.
„Það var mjög áhugaverð frétt á RÚV. Skúli Magnússon, ritari EFTA-dómstólsins lýsti því afdráttarlaust yfir að lokaorðið um skaðabótaskyldu væri alltaf hjá íslenskum dómstólum. Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði í umræðunni,“ segir Sigmundur Davíð og á við að varnarþingið í málinu sé í Reykjavík.
„Það hentar Bretum og Hollendingum augljóslega ekki að tapa málinu. En það hentar þeim ekki heldur að vinna, vegna þess að þá er verið að staðfesta það að allir bankar í Evrópu séu á ábyrgð þeirra ríkja sem þeir tilheyra. Þannig eru til dæmis allir spænsku bankarnir, sem hafa verið í miklum vanda, skyndilega á ábyrgð spænska ríkisins, sem á líka í miklum vandræðum og má ekki við því að öllu bankakerfinu sé dembt í fangið á því. Eins og staðan er í Evrópu og bankakerfum álfunnar held ég að hvorug niðurstaðan myndi henta Bretum og Hollendingum.“