Yfir 500 jarðskjálftar með upptök við Kleifarvatn hafa komið fram á mælum Veðurstofunnar í dag. Skjálftahrinan stendur enn yfir, en stærsti skjálftinn í kvöld var um 3 að stærð.
Flestir af þessum rúmlega 500 jarðskjálftum hafa verið smáir, en fimm hafa verið stærri en 3 og sá stærsti mældist 4,1. Skjálftahrinan hófst á fimmtudagskvöld, en mestur kraftur hefur verið í skjálftahrinunni í dag.
Hreyfingar hafa komið fram á GPS-mælum Veðurstofunnar, en jarðvísindamenn treysta sér ekki til að fullyrða að kvika sé á hreyfingu undir jarðskorpunni. Þeir minna á að jarðskjálftar séu algengir á þessu svæði.
Þrír kafarar voru við köfun í norðaustur hluta Kleifarvatns í morgun þegar skjálfti af stærðinni 4 reið yfir. Friðbjörn Orri Ketilsson, einn kafaranna, segir að þeir hafi fundið fyrir miklu höggi og heyrt háværa hvelli.