Enn skelfur jörð við Krýsuvík, en að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, landfræðings hjá Veðurstofu Íslands, mælast jarðskjálftar þar af og til.
„Upp úr klukkan hálf tíu í gærkvöldi fór heldur að róast. En það kemur einn og einn skjálfti og þeir eru allir innan við þrjú stig,“ sagði Sigþrúður í samtali við mbl.is.
Hún sagði að Veðurstofu hefði ekki borist tilkynningar um að fólk fyndi fyrir skjálftunum í nótt og í morgun, enda fyndi fólk að öllu jöfnu lítið fyrir svo vægum skjálftum.
Klukkan rúmlega hálf níu í morgun hafði síðasti skjálfti mælst klukkan 7:05. „Það lítur út fyrir að þetta sé að fjara út. En maður veit aldrei,“ sagði Sigþrúður.
Aukinn viðbúnaður hefur verið á Veðurstofu Íslands vegna þessa um helgina og í nótt og það mun verða áfram.
„Fólkið okkar í Krýsuvík er vant svona jarðskjálftum. Jörðin hefur verið að hristast þarna annað slagið í gegnum tíðina. Ég hef verið í sambandi við það og það hafa ekki komið upp nein vandamál vegna þessara skjálfta núna,“ segir Lovísa Christiansen, forstöðumaður meðferðarheimilisins í Krýsuvík, þar sem jörðin skalf ítrekað um helgina.