Ragnheiður Elín Árnadóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og þingmaður í Suðurkjördæmi, gagnrýnir þátt stjórnvalda í þeirri töf sem hafi orðið við uppbyggingu álvers í Helguvík. Haft er eftir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra í Morgunblaðinu á morgun að ekki sé til nær orka.
Eins og rakið var í Morgunblaðinu um helgina hefur Norðurál handbærar 304 milljónir dollara, eða um 36 milljarða króna, sem fyrirtækið gæti notað til fjárfestinga í Helguvík. Kom jafnframt fram að fyrirtækið hefði öll tilskilin leyfi og að samið hefur verið um kaup á búnaði.
Ragnheiður Elín minnir á samninga núverandi stjórnvalda.
„Ég hef miklar áhyggjur af málinu enda hef ég frá upphafi verið eindreginn stuðningsmaður þess að verkefnið verði að veruleika. Það hefur verið unnið að því í fjöldamörg ár og það hefur lengi verið á stefnuskrá stjórnvalda, þ.m.t. þeirrar ríkisstjórnar sem situr nú.
Núverandi ríkisstjórn skrifaði undir fjárfestingarsamning sem skuldbatt hana til að gera allt sem í hennar valdi stendur til að greiða fyrir fjárfestingunni. Reiknað hefur verið með verkefninu í þjóðhagsspá og það átti til skamms tíma að vera helsti drifkraftur hagvaxtar hér. Á sama tíma hafa stjórnvöld lagt steina í götu þessa verkefnis með hinni hendinni, með einum eða öðrum hætti, og þá er ég sérstaklega að vísa til umhverfisráðherrans," segir Ragnheiður Elín.
Embættismenn og sérfræðingar
„Orkustofnun er núna að kynna HS Orku drög að virkjanaleyfi. Það mun tefja verkefnið um a.m.k. 2 ár, að því er fullyrt er, og auka kostnaðinn við verkefnið mjög mikið. Það er slæmt að slíkt skuli gerast á þessu stigi málsins. Þótt deilt sé um hversu mikil orka sé þarna á svæðinu hafa sérfræðingar hjá ÍSOR og HS Orku, sem og verkfræðistofur sem HS Orka hefur starfað með, komist að allt öðrum niðurstöðum en Orkustofnun reiknar með.
Það eru hins vegar ekki þessir sérfræðingar heldur embættismenn hjá Orkustofnun sem eru að leiða málið. Ég held að menn ættu leggja sig fram um að eyða óvissu sem fyrst, í stað þess að draga málið eins og búið er að gera.
Einnig er mikilvægt að orkufyrirtækin og Norðurál nái samningum um orkuverðið en það er auðvitað mjög erfitt þegar menn vita ekki um hvað þeir eru að semja. Ég leyfi mér að gagnrýna núverandi stjórnvöld, að iðnaðarráðherra frátöldum, fyrir að vera ekkert sérstaklega dugleg við að eyða óvissu í þessu samhengi. Ef að allir myndu leggjast á árarnar og segja „Nú skulum við klára þetta" er ég þess fullviss að það væri hægt,“ segir Ragnheiður Elín.