Kæru vegna ærumeiðinga vísað frá

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur vísað frá kæru setts saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra á hendur forvera sínum vegna ærumeiðinga.

Málið var kært til ríkissaksóknara í lok janúar sem sendi það til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem vísaði málinu frá þann 16. febrúar sl.

Skv. upplýsingum frá ríkissaksóknara lagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, settur saksóknari efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, fram kæru á hendur Helga Magnúsi Gunnarssyni, forvera sínum í starfi, vegna ærumeiðinga. Helgi Magnús var í haust skipaður varasaksóknari í Landsdómsmáli gegn Geir H. Haarde.

Helgi Magnús var kærður fyrir að hafa á göngum efnahagsbrotadeildar látið meiðandi ummæli falla í áheyrn starfsmanna deildarinnar, en ekki í áheyrn Öldu Hrannar.

Þann 23. janúar sl. barst ríkissaksóknara erindi þar sem kvartað var undan ummælunum. Erindið var endursent samdægurs þar sem ríkissaksóknari tók fram að slík kvörtun ætti að heyra undir yfirmann embættisins en ekki ríkissaksóknara. 

Tveimur dögum síðar barst svo formleg kæra. Þann fjórða febrúar sl. sendi ríkissaksóknari málið til meðferðar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Skv. upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var málinu vísað frá á grundvelli 52. gr. um meðferð sakamála, þar sem ekki hafi þótt tilefni til að hefja lögreglurannsókn þar sem ekki um nein brot hafi verið að ræða.

Sú niðurstaða lá fyrir 16. febrúar sl. og hefur Alda Hrönn frest til 16. mars til þess að kæra ákvörðunina til ríkissaksóknara. Skv. upplýsingum frá ríkissaksóknara hefur slík kæra ekki borist. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert