Krefst óháðra upplýsinga um Icesave

Þingmaður Hreyfingarinnar krafðist þess á Alþingi í dag, að innanríkisráðuneytið sæi til þess að óháðum upplýsingum um Icesave-samninginn verði komið á framfæri við þjóðina fyrir atkvæðagreiðsluna í apríl.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði Ögmund Jónasson, utanríkisráðherra, hvort hann væri enn þeirrar skoðanir, að fjölmiðlar eigi að mestu að sjá um kynningu á Icesave-samningnum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna.

„Hér á Íslandi eru fjölmiðlar mjög pólitískir, þó kannski sérstaklega í Icesave-málinu. Ég vara sérstaklega við því, að innanríkisráðherra láti fjölmiðla eina um kynningu á þessu máli," sagði Margrét.

Hún sagði að víðast hvar væru þjóðir búnar að finna leiðir til að koma upplýsingum á framfæri í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslur og oftast væru óháðar stofnanir fengnar til að taka slíkar upplýsingar saman, sem væru skiljanlegar öllum þorra almennings. 

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að hann væri þeirrar skoðunar, að kynningarstarfið eigi að fara fram í opinni og frjálsri umræðu í fjölmiðlum.

Hann sagði að stjórnvöldum bæri lögbundin skylda til að senda þingmálið til allra landsmanna. Þar lyki lagaskyldunni og frekari kynning væri vandmeðfarin.

„Ég er ósammála því að hægt sé að setja auðveldlega fram kynningarefni; það er ekki til neitt í mínum huga sem sem heitir fullkomlega óháð stofnun því þetta eru umdeild efni sem byggja að hluta til á líkindum og vangaveltum," sagði Ögmundur.

Margrét ítrekaði að umræðan um Icsave væri í skotgröfunum og virtist ekki á leið upp úr þeim. Sagðist hún krefjast þess að innanríkisráðuneytið fengi óháðan aðila til að standa að kynningarefni fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. 

Ögmundur sagðist ekki vilja gera lítið úr áhyggjum Margrétar um að upplýsingar og staðreyndir málsins verði ekki reiddar fram á hlutlausan hátt. Ögmundur sagði, að hægt væri að tryggja það að hluta til með því að Ríkisútvarpið verði vettvangur fyrir óhlutdræga umræðu þar sem sjónarmið komast að.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka