Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvaða kröfur um öryggis- og verndarbúnað eigi að gera til hjólreiðafólks í nýjum umferðarlögum, en í frumvarpi er m.a. kveðið á um heimild innanríkisráðherra til þess „að setja ákvæði í reglugerð um öryggis- og verndarbúnað hjólreiðamanna og annarra óvarinna vegfarenda“.
Í núgildandi umferðarlögum segir: „Ráðherra getur sett reglur um notkun hlífðarhjálms við hjólreiðar.“ Því er ljóst að í nýjum lögum er gert ráð fyrir mun opnara og víðtækara orðalagi. Ekki fengust þó upplýsingar frá innanríkisráðuneytinu um það hvaða kröfur hjólreiðafólk getur átt von á að gerðar verði til þess í framtíðinni.
Í greinargerð með frumvarpinu segir: „Hér gæti t.d. verið um að ræða frekari útfærslu á notkun hlífðarhjálma við hjólreiðar, svo og um endurskinsfatnað og annan búnað til að gera gangandi og hjólandi vegfarendur sýnilegri í umferðinni og um kröfur til slíks búnaðar.“