Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag, að Íslendingar geti ekki leyft sér að ganga út frá því, að mikil hækkun eldsneytisverðs sé tímabundið ástand. Ætlar ráðherra að setja á stofn starfshóp fjögurra ráðuneyta til að fara yfir þessi mál.
Þingmenn ræddu í dag viðbrögð ríkisstjórnarinnar við hækkandi olíuverði. Um var að ræða umræðu utan dagskrár að ósk Tryggva Þórs Herbertssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Sagði Tryggvi Þór að olíureikningur Íslands í fyrra hefði verið rúmir 70 milljarðar króna. Ríkið legði nú vegagjald, vörugjald, sérstakt vörugjald, kolefnisgjald og virðisaukaskatt á innkaupsverð eldsneytis.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að skatthlutfall hér á landi af útsöluverði eldsneytis hefði farið lækkandi miðað við verðlag þar til breyting varð á í árslok 2008. Hæsta hlutfall skatta af útsöluverði bensíns hefði verið í upphafi árs 1999 en þá var það 72%. Nú er þetta hlutfall undir 50% að sögn Steingríms.
Hann sagði að útsöluverð á bensíni hér á landi væri eitt það lægsta í Evrópu en á móti kæmi að dregið hefði úr kaupmætti hér. Í Noregi, þar sem kaupmáttur væri meiri, væri langhæsta bensínverðið eða jafnvirði 316 króna. Þá væri skattlagningarhlutfallið víðast hvar mun hærra en hér.
„Ég held að við eigum núna að líta á þessar aðstæður, sem hér eru komnar upp, með svipuðu hugarfari og menn tókust á við olíukreppuna á áttunda áratugnum. Þá gerðu menn stórátak í að hitaveituvæða kaupstaði og þéttbýlisstaði sem enn kyntu hús með rafmagni, til stórkostlegs þjóðhagslegs sparnaðar þegar frá leið," sagði Steingrímur. Hann bætti við að Íslendingar ættu að líta á þetta sem hvatningu til að hraða þróun umhverfisvænna og innlendra orkugjafa.
Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að engin takmörk virtust vera fyrir því hversu miklum vonbrigðum væri hægt að verða fyrir með einn ráðherra. „Eldsneytisverð hækkar og hækkar á Íslandi og ríkið tekur til sín langstærsta hluta af verði bensínlítra og ráðherrann svarar fyrirspurnum um hvað hann ætlar að gera með því einu, að hann hyggist setja málið í nefnd," sagði Sigurður Kári.
Álfheiður Ingadóttir, þingmaður VG, fagnaði hins vegar viðbrögðum ríkisstjórnarinnar. Hún sagði einnig ástæðu til að kanna hvers vegna engar verðbreytingar yrðu hér landi þegar olíuverð lækkaði úti í heimi.
„Kannski er kominn tími til að setja nýja olíuverðlagsnefnd til að skoða þau mál vandlega," sagði Álfheiður.