„Við erum ekki að styðja gjörðir hans. Við erum að lýsa yfir stuðningi við hann og fjölskyldu hans vegna fjölmiðlaumræðunnar sem hefur verið í gangi,“ segir starfsmaður Isavia, sem kýs að koma ekki fram undir nafni, um undirskriftalistana sem voru látnir ganga í fyrirtækinu.
Í frétt sem birtist á mbl.is fyrr í dag sagði að undirskriftarlistar hefðu verið látnir ganga meðal starfsmanna Isavia þar sem stuðningi er lýst við manninn, sem áreitti samstarfskonu sína, en dómur féll í málinu í héraðsdómi Reykjaness fyrir tæpum þremur vikum. Þar var fyrirtækið dæmt til greiðslu miskabóta vegna kynferðislegrar áreitni mannsins gegn konunni. Hann var yfirmaður hennar.
„Við erum ekki að styðja það sem hann gerði, sumir eiga erfitt með að skilja það,“ segir starfsmaðurinn og bætir við að fjölmiðla hafi jarðað manninn og dæmt sem
kynferðisafbrotamann. „Það harma þeir starfsmenn sem skrifuðu undir
listann.“ Hann segir manninn ekki geta lagt leið sína út í búð þar sem fólk liti á hann sem kynferðisafbrotamann. „Þetta er einum of.“