Eini fastráðni lögreglumaðurinn í Dalabyggð fór í dag í veikindaleyfi en ekki hefur verið skipaður nýr lögreglumaður í hans stað á meðan.
Mikil óánægja er í Dalabyggð vegna málsins og finnst íbúum þar að sér vegið í öryggismálum. Um 700 íbúar eru í Dalabyggð og Sveinn Pálsson, sveitarstjóri í Dalabyggð segir að það séu nú 80 kílómetrar frá Búðardal í næstu lögreglustöð í Borgarnesi.
„Landssvæðið er stórt og það að þjónusta það allt neðan úr Borgarnesi er ekki bjóðandi. Hvorki þessu fólki sem hér býr né fólki sem er á ferðinni,“ segir Sveinn. Sveitarfélagið nái yfir um 8.000 ferkílómetra, frá Borgarfirði upp á Holtavörðuveiði og vestur að Gilsfirði.
Óttast að lögreglustöðinn verði lokað
Sveinn segist hafa heyrt af fréttir af veikindaleyfi lögreglumannins í gær og þá haft samband við lögreglustjórann í Borgarnesi. Hann hafi sagt að það væri ekki verið að loka lögregluvarðstöðinni í Dalabyggð. Lögreglan í Borgarnesi myndi leysa lögreglumanninn af í veikindaleyfinu.
Sveinn segist vita af hugmyndum sem hafa verið uppi um að leggja niður starf lögreglumannsins og loka varðstöðinni í Búðardal og óttast að þetta sé liður í því en það sé ekki búið að tilkynna það opinberlega að sú verði niðurstaðan. Þá bíði sveitastjórnin enn eftir svörum úr ráðuneytinu um málið. Hann segir sveitarstjórn Dalabyggðar hafa unnið að því að lögreglustjórann í umdæminu fái aukið rekstrarfé til að ekki þurfi að koma til lokunar varðstöðvar lögreglu í sveitarfélaginu. Lögregluumdæmið hafi vantað rekstarfé og væntanlega sé lokunin í Dalabyggð þá liður í þeim sparnaðaraðgerðum.
Héraðslögreglumenn hafi áður leyst af
Þegar spurt er hvort verið sé að loka stöðinni í Búðardal segir Stefán Skarphéðinsson lögreglustjóri í Borgarnesumdæmi að lögreglumaðurinn verði leystur af eins og hingað til. Hann segir tvo héraðslögreglumenn í Búðardal og einn í Saurbæjarhreppi. Þeir hafi tekið að sér bakvaktir og verið lögreglumanninum til aðstoðar við að vakta böll ofl. „Þeir eru okkar varalið sem eru til taks og hafa leyst lögreglumanninn af hingað til í veikindaleyfum og fríum. Þeir eru með Tetra talstöðvar þannig að það er hægt að ná í þá og vera í sambandi við þá á bakvöktunum. Ef eitthvað kemur upp á þá fara þeir jafnvel á sínum eigin bílum til að byrja með en það hefur að mestu leiti verið staðsettur lögreglubíll í Búðardal. Hann hefur verið nýttur héraðslögreglumönnunum.“
Stefán segir þetta ekki í fyrsta skipti sem lögreglumaðurinn þurfi að fara í veikindaleyfi og ekki sé vitað hvað það standi lengi. Stefán hafnar því að um ótímabundið veikindaleyfi sé að ræða. Hann segir þetta tengjast því að þeim sé uppálagt að skera niður um háar fjárhæðir.